Skip to main content

DiscoverEU

If you're 18 and a resident in an Erasmus+ Programme country, it's time to expand your comfort zone

Reglur um DiscoverEU-keppnina

1. Lýsing

DiscoverEU er verkefni á vegum Erasmus+ áætlunarinnar (2021-2027). Tilgangurinn með því er að bjóða ungu fólki á aldrinum 18 ára uppá að öðlast ferðareynslu sem mun efla tilfinningu þeirra fyrir því að tilheyra Evrópusambandinu, gera því kleift að kanna fjölbreytni Evrópu, menningararfleifð álfunnar og sögu hennar, mynda tengsl við fólk frá öllum heimsálfum og loks að uppgötva sjálfan sig. 

Haustið 2023 munu framkvæmdastjórn ESB og Evrópustofnun mennta- og menningarmála (EACEA) velja að minnsta kosti 35.000 ungmenni sem uppfylla þau skilyrði um hæfi sem lýst er hér að neðan. Ungmennin geta sótt um á Evrópsku ungmennagáttinni. Umsóknartímabilið stendur yfir frá 4. október 2023 kl. 12:00:00 (hádegi að Brussel tíma) til 18. október 2023 kl. 12:00:00 (einnig hádegi að Brussel tíma).

Framkvæmdastjórnin og EACEA munu gefa hinum heppnu ungmennum kost á ferðalögum til að kanna Evrópu, að hámarki einn mánuð, einhvern tímann á bilinu 1. mars 2024 til 31. maí 2025. 

Að vísu munu þátttakendurnir yfirleitt ferðast með járnbrautum. Þó eru möguleikar á öðrum ferðamáta ef nauðsyn krefur, s.s. ferjum og langferðabílum, til að tryggja eins breiðan aðgang að verkefninu og unnt er, en einnig eru umhverfislegir þættir, tími og vegalengdir tekin með í reikninginn. 

Í undantekningartilvikum, og þegar engin önnur samgöngutæki eru í boði, þá verður unga fólkinu boðið uppá að ferðast með flugvél. Þetta mun tryggja að ungt fólk sem býr á afskekktum svæðum eða á eyjum hafi einnig tækifæri til að taka þátt í DiscoverEU. 

Hinir heppnu þátttakendur munu einnig fá evrópska ungmennakortið (EYCA) afhent. Þetta kort verður tilbúið til virkjunar á hinu notendavæna DiscoverEU ferðaappi, sem þátttakendum er gert aðgengilegt eftir að bókunarferlinu lýkur. Kortið gildir í eitt ár eftir að það hefur verið virkjað og það mun veita ungu fólki afslátt á hverskyns menningartengdum heimsóknum og starfsemi, aðgöngu að námi, náttúru, íþróttum, staðbundnum ferðum, gistingu, mat o.m.fl. 

 

2. Gjaldgengir umsækjendur

Til þess að vera hæfur, þá þurfa umsækjendur að vera:

  • 18 ára 1. janúar 2024, þ.e. ungmenni sem fædd eru á tímabilinu 1. janúar 2005 (meðtöldum) til 31. desember 2005 (meðtöldum);
  • vera ríkisborgari eða búsettur í einu af: 

          -   hinum 27 aðildarríkjum Evrópusambandsins, þar með talið á ystu landsvæðum þess (Frönsku Gvæjana FR), Gvadelúpeyjum (FR), Martiník (FR), Réunion (FR), Mayotte (FR), Sankti Martin (FR), Asóreyjum (PT), Madeiru (PT) og Kanaríeyjum (ES), eða; 
          -   þeim löndum sem tengjast Erasmus+ áætluninni: Íslandi, Liechtenstein, Norður-Makedóníu, Noregi, Serbíu og Tyrklandi eða; 
          -   ríkisborgari í einu af 27 aðildarríkjum Evrópusambandsins þar með talið á ystu svæðum þess handan hafsins sem tengjast Evrópusambandinu: (Arúba(NL), Bonaire (NL), Curaçao (NL), Frönsku Pólynesíu (FR), Frönsku suðlægu landsvæðunum (FR), Grænlandi (DK), Nýju-Kaledóníu (FR), Saba (NL), Sankti- Bartólómeusareyjum (FR), Sankti Estatíusey (NL), Sankti Maarten (NL), Sankti Pierre og Miquelon (FR), Wallis og Futunaeyjum (FR).

  • fylla út sína réttu kennitölu, vegabréfsnúmer eða dvalarleyfisnúmer á umsóknareyðublaðinu á netinu.

Þeir umsækjendur sem valdir eru geta aðeins byrjað ferðalagið að því tilskyldu að þeir: 

  • hefji ferð sína í einhverju þeirra landa sem gjaldgeng eru í DiscoverEU (sjá hér að framan) þegar ákvörðunin um valið var tekin;
  • hyggist ferðast allt frá einum dagi og uppí einn mánuð, að báðum meðtöldum;
  • ætli sér að ferðast til að minnsta kosti eins af þeim löndum sem gjaldgeng eru í DiscoverEU (sjá hér að framan) þegar ákvörðunin um valið var tekin;
  • eru tilbúnir til að gerast DiscoverEU sendiherrar. 

Ekki verður tekið tillit til þeirra umsækjanda sem uppfylla ekki hæfisviðmiðanirnar við valferlið. 

 

3. Umsóknarferlið

DiscoverEU umsóknarferlið á fer fram á sérstöku umsóknareyðublaði á Evrópsku ungmennagáttinni. Hvorki verður hægt að leggja fram umsókn fyrir né eftir umsóknartímabilið sem tilgreint er í 1. lið.

Það eru 7 þrep í þessu umsóknarferli:

  1. Umsækjendur þurfa fyrst að standast hæfispróf, sem felur í sér að þeir verða beðnir um að fylla út fæðingardag, ríkisfang og búsetu. Ef gögnin eru ekki í samræmi við þær hæfisreglur, sem taldar eru upp í 2. lið, "gjaldgengir umsækjendur", þá geta þeir ekki haldið áfram með næsta skref. Auk þess verða þeir beðnir um að staðfesta að þeir séu tilbúnir til þess að hlíta reglum DiscoverEU keppninnar, samþykkja að persónuupplýsingar þeirra verði geymdar og að unnið sé úr þeim í þágu DiscoverEU-samkeppninnar, og haft sé samband við þá af framkvæmdastjórn ESB eða stofnunum sem hafa heimild framkvæmdastjórnarinnar og EACEA, Erasmus+ landsskrifstofum og Eurodesk í þeim sama tilgangi.
  2. Umsækjendur þurfa að gera grein fyrir því hvort þeir vilji ferðast einir síns liðs eða í hópi að hámarki 5 manns.
  3. Umsækjendur þurfa að gefa upp gilt tölvupóstfang. Að svo búnu munu þeim berast sjálfvirkur tölvupóstur frá Evrópsku ungmennagáttinni til þess að staðfesta hvort netfangið sé gilt. Sú staðfesting er nauðsynleg í ljósi þess að öll frekari samskipti við umsækjendurna, að valinu loknu, munu fara fram með tölvupósti. Með því að biðja umsækjendur um að staðfesta netfangið sitt, þá eru framkvæmdastjórnin og EACEA að koma í veg fyrir óheimila notkun á þeim netföngum af óviðkomandi fólki.  
  4. Eftir staðfestinguna á netfangi sínu, þá þarf unga fólkið að fylla út umsóknareyðublaðið. Fyrst af öllu þurfa þau að fylla út sínar persónuupplýsingar: ríkisfang, fæðingardag, fornafn, eftirnafn, kyn, netfang, símanúmer, búsetuland, hérað, starfsgrein sína og númer vegabréfs eða dvalarskírteinis. Vegna ungs fólks með skerta hreyfigetu eða fötlun, þá getur þurft að taka fram á hvaða sérþjónustu það þarf á að halda.
  5. Þegar þau hafa lokið við að fylla út sínar persónuupplýsingar, þá verður öllum umsækjendunum gert að svara fimm krossaspurningum um almenna þekkingu sína á Evrópusambandinu eða öðrum þeim framtaksverkefnum sambandsins sem beinast að ungu fólki. Loks verða þau beðin um að svara einni aukaspurningu. Síðan verða umsækjendurnir valdir með tilliti til fyrirliggjandi fjárhagsáætlunar og svo raðað eftir réttum og viðhlítandi svörum þeirra við spurningunum.
  6. Umsækjendur eru beðnir um að gefa viðbótarupplýsingar um ferðaáætlanir sínar (þ.e. hvenær þeir ætla að hefja ferð sína, hvort það sé í fyrsta skipti sem þeir ferðast einir án foreldra sinna, hvað þeir vilja helst læra af þessari reynslu sinni, hvernig þeir koma til með að fjármagna kostnað á borð við gistingu, uppihald, grunntryggingar o.s.frv. á meðan á ferðinni stendur og hvernig þeir uppgötvuðu DiscoverEU). Upplýsingarnar, sem færðar eru inn undir þeim lið, eru ekki bindandi og munu ekki hafa nein áhrif á valferlið. Þau gögn, sem safnað hefur verið á þann hátt, verða notuð í tölfræðilegum tilgangi og sem upplýsingar fyrir framkvæmdastjórnina og EACEA í því skyni að betrumbæta DiscoverEU.  
  7. Að svo búnu mun öllum umsækjendum berast sjálfvirkur tölvupóstur frá Evrópsku ungmennagáttinni, eftir að hún hefur meðtekið umsókn þeirra. Sá tölvupóstur mun upplýsa þá um skráningu umsóknarinnar sé lokið og mun einnig innihalda umsóknarkóðan þeirra og tímaáætlun varðandi hvenær þau geti átt von á að ákvörðunin um valið liggi fyrir.

Öllum verður úthlutaður kóði þegar umsóknin hefur verið lögð fram. Umsækjendur þurfa að varðveita þann umsóknarkóða vel og vandlega uppá síðari samskipti. Ef einhver umsækjandi vill bjóða fólki að taka þátt í hópnum sínum, þá verður hann jafnframt leiðtogi hópsins og verður að senda kóðann til hinna meðlima hópsins til að þess að heimila skráningu þeirra. Með kóðann sem leiðtogi hópsins hefur miðlað þeim, þá þurfa hinir meðlimir hópsins að skrá sig á netinu og fylla út persónuupplýsingar sínar. 

Vinsamlegast athugið að meðlimir hópsins þurfa ekki að taka þátt í spurningakeppninni og eða svara aukaspurningunni, þar sem aðeins leiðtogi hópsins verður að ljúka því. Hins vegar þurfa þeir samt sem áður að fylla út persónuupplýsingar til þess að unnt sé að staðfesta umsóknir þeirra. Meðlimir hópsins þurfa að uppfylla sömu þátttökuskilyrði og aðrir: að vera 18 ára og vera búsettir í einu af aðildarríkjum Evrópusambandsins eða einhverju þeirra þriðju landa sem heyra undir Erasmus+ áætlunina: Íslandi, Liechtenstein, Norður-Makedóníu, Noregi, Serbíu eða Tyrklandi. Þrátt fyrir að umsækjendur hafa gefið til kynna að þeir vilji helst ferðast einir síns liðs, þá geta þeir samt bætt vinum við umsókn sína eftir afhendingu hennar og fyrir lokafrestinn, og þá tekur við sama málsmeðferð sem rakin var hér að framan.

Hópumsókn verður metin eins og um eina umsókn sé að ræða. Aðeins þeir meðlimir hópsins sem hafa lokið við að fylla út umsóknareyðublaðið, með því að nota til þess kóðann sem leiðtogi hópsins afhenti þeim, munu koma til greina þegar að valinu kemur. Meðlimir hópsins skulu ekki skrá sig hver fyrir sig. 

Hópar geta verið samsettir af fólki af mismunandi þjóðernum, sem búa á mismunandi stöðum.

Aðeins er hægt að leggja fram eina umsókn fyrir hvern einstakling. Fyrsta umsóknin sem skráð er inní Evrópsku ungmennagáttina verður sú eina sem tekið er tillit til í valferlinu. Einstaklingar geta ekki sótt um í mismunandi hópum. Ef þú sendir in tvær eða þaðan af fleiri umsóknir, þá verður aðeins sú fyrsta sem skráð var inní Evrópsku ungmennagáttina tekin til greina við valferlið. 

Ungt fólk sem var úthlutað DiscoverEU ferðapassa í einhverri af fyrri umsóknarumferðunum er ekki gjaldgengt til þess að leggja fram nýja umsókn. Slíkt mun koma í ljós strax í upphafi umsóknarferlisins. Ef umsóknir berast frá ungu fólki, sem hlaut DiscoverEU ferð við einhverja af fyrri úthlutunum, uppgötvast við eitthvert seinni tíma umsóknarferli, annaðhvort af verktakanum sem framkvæmdastjórnin og EACEA tilnefndi til þess að sjá um ferðabókanir eða af framkvæmdastjórninni og EACEA sjálfum, þá verða slíkir umsækjandur dæmdir úr leik

 

4. Valferli og valviðmiðanir

Gefinn er út kvóti af ferðapössum fyrir hvert land um sig. Sú úthlutunarregla byggist á Erasmus+ áætluninni, lykilaðgerð 1, dreifingarlykli fyrir hreyfanleika "ungmenna".

Valferlið fer fram á grundvelli þeirrar búsetu sem umsækjandinn tilgreinir á umsóknareyðublaðinu. Ef hinsvegar um er að ræða færri umsækjendur frá vissum löndum heldur en tiltækir ferðapassar til þeirra segja til um, þá verður þeim sem eftir standa dreift á þau lönd þar sem þátttakendur eru fleiri heldur en úthlutaður kvóti þess var.

Búseta leiðtoga hópsins mun skera úr um hvaða búseta verður lögð til grundvallar við útreikning kvótans. Ef hópur endar síðastur á listanum yfir valda umsækjendur í viðkomandi landi og kvótanum fyrir það land er náð, þá verður allur hópurinn valinn.

Umsækjendur þurfa fyrst að standast hæfispróf, sem felur í sér að þeir verða beðnir um að fylla út fæðingardag, ríkisfang og búsetu eins og um getur í 2. og 3. lið. Vinsamlegast athugið að þetta verður metið sjálfkrafa á meðan á umsókninni stendur, og þau gögn sem afhent voru verða skoðuð uppá nýtt af þeim verktaka sem framkvæmdastjórnin og EACEA tilnefna til að sjá um ferðabókanirnar. Ef verktaki uppgötvar, á meðan hann er að kanna nafnskírteini , vegabréf og/eða dvalarleyfi þátttakendanna, að viss umsækjandi hafi gefið ranga yfirlýsingu, þá verður þeim sama vísað úr keppninni.

Ef öll hæfisskilyrðin eru uppfyllt, þá verða umsækjendur einnig að uppfylla valviðmiðanirnar, þ.e. að svara krossaspurningum fimm rétt og svara aukaspurningunni líka. Ef um er að ræða hópa, þá verður aðeins leiðtogi viðkomandi hóps krafinn um að svara krossaspurningunum fimm og aukaspurningunni.

Umsækjendur verða flokkaðir eftir búsetu og svo raðað í samræmi við hvort krossaspurningunum fimm var svarað rétt og eftir því hvaða svar barst við aukaspurningunni.

Eftir að umsóknartímabilið er útrunnið, þá verða niðurstöðurnar sóttar í evrópsku ungmennagáttina og sendar dómnefndarmönnum sem munu leggja sitt lokamat á þær.

Ef umsóknirnar reynast of margar (frá einstaklingum eða hópum) og raðast jafnt á þeim endapunkti sem hinn fasti úthlutunarkvóti kveður á um, þá munu framkvæmdastjórnin og EACEA beita meginreglunni um "fyrstur kemur fyrstur fær" við úthlutun síðustu sætanna. 

 

5. Dómnefndin

Um að ræða valnefnd sem skipuð er starfsfólki framkvæmdastjórnarinnar og EACEA, og koma mun saman í lok umsóknarferlisins. Þeir munu gaumgæfa niðurstöður valsins á grundvelli þeirra viðmiðana sem settar voru fram hér á undan. Þeir munu vega og meta málavexti og kveða svo uppúr með hina endanlega röðun þeirra umsækjenda sem verða valdir til þess að hljóta ferðapassa á grundvelli svara þeirra í spurningakeppninni og við aukaspurningunni, að teknu tilliti til kvóta hvers lands og, eftir því sem við á, hvenær umsóknin barst. Þegar valið er loks afstaðið, þá verður biðlisti útbúinn. Umsækjendur á biðlistanum gætu hugsanlega fengið ferðapassa úthlutað ef um er að ræða eftirstöðvar fjárhagsáætlunar sem ekki var ráðstafað eða þegar valdir umsækjendur segja af sér eða virkja ekki ferðapassana sína (sjá 7. lið).

Á grundvelli mats dómnefndarinnar, þá mun EACEA staðfesta valákvörðunina, ásamt því að veita upplýsingar um hver sé heildarfjárhæð þeirra ferðapassa sem úthlutað var, um heildarfjárhagsáætlun ferðapassaverkefnisins, lista yfir valda umsækjendur og biðlistann. 

 

6. Niðurstöðurnar tilkynntar

Í lok valferlisins munu umsækjendur fá tilkynningu með tölvupósti þar sem fram kemur hvort:

  • þeir hafa verið valdir sem styrkþegar („valdir umsækjendur“) eða
  • hvort þeir voru ekki valdir og hafi því verið settir á biðlistann

Þegar hinum völdu umsækjendum hefur verið tilkynnt um niðurstöðuna, þá verða listarnir sendir til þess verktaka sem framkvæmdastjórnin og EACEA tilnefndu til að sjá um ferðabókanirnar. Eftir það verður frekari samskiptum á milli þess verktaka og hinna völdu umsækjenda undirbúin. Nánari upplýsingar um þetta má finna í 8. lið.

Umsækjendurnir geta líka gengið úr skugga um það, með appkóða sínum á Evrópsku ungmennagáttinni, hvort þeir hafa verið valdir til þátttöku eður ei.

 

7. Biðlistinn

Allir þeir umsækjendur sem ekki náðu vali verða settir á biðlista þar sem þeim verður raðað í lækkandi forgangsröð út frá því hvernig þeir svöruðu krossaspurningunum og aukaspurningunni. Framkvæmdastjórnin og EACEA geta úthlutað ferðapössum til umsækjenda á biðlistanum í eftirtöldum tilvikum: valdir umsækjendur drógu umsókn sína til baka eða virkjuðu ekki ferðapassan sinn innan þeirra tímamarka sem tilgreind eru í 8. lið, eða ef virði úthlutaðra ferðapassa nemur lægri upphæð heldur en fjárhagsáætlunin segir til um. Þessu fyrirkomulagi má beita allt þar til hin tiltæka fjárhagsáætlun er uppurin. Farið verður yfir það mánaðarlega hversu hratt gengur á fjárhagsáætlunina.

Skráning manna á biðlistann skapar þeim ekki nein kröfuréttindi gagnvart framkvæmdastjórninni eða EACEA, sem ábyrgjast ekki að þeir verði valdir síðar.

Umsækjendur sem settir voru á biðlistann geta átt von á því að verktakinn sem framkvæmdastjórnin tilnefndi til þess að sjá um bókanirnar hafi samband við þá og bjóði þeim að skrá sig inn á bókunarsíðunni. Þeir sem eru á biðlistanum og lenda í því að haft er samband við sig, geta ekki krafist endurgreiðslu á kostnaði af ferðum sem þeir fóru áður en boðið barst þeim, og geta heldur ekki krafist að ferðatímabilið verði framlengt.

 

8. Bókanir á farseðlum og ferðareglurnar

Áskilið er að þeir umsækjendur sem valdir eru til þátttöku hefji ferð sína í landi sem tilheyrir DiscoverEU (sjá 2. lið – Gjaldgengir umsækjendur) og ferðist til að minnsta kosti eins annars lands sem er líka hluti af DiscoverEU og jafnframt ekki hið sama og brottfararlandið. Alls getur ferðalagið staðið yfir frá einum degi minnst og upp í einn mánuð að hámarki. Ferðin skal farin á tímabilinu frá 1. mars 2024 til 31. maí 2025. Ferðapassann er hægt að nota í búsetulandinu til aðeins einnar brottfarar þaðan og einnar heimfarar þangað til baka.

Ferðapassar fyrir hina völdu umsækjendur eru bókaðir, keyptir og afhentir af verktakanum sem framkvæmdastjórnin og EACEA tilnefna til þess að sjá um þau mál. Hinir völdu umsækjendur eiga ekki undir neinum kringumstæðum að bóka passa sjálfir eða með milligöngu ferðaskrifstofu. Passar sem hinir völdu umsækjendur kaupa sjálfir verða ekki endurgreiddir. 

Verktakinn sem tilnefndur er af framkvæmdastjórninni og EACEA mun hafa samband við hina völdu umsækjendur og veita þeim aðgang að snjallsímaappi, þ.e. DiscoverEU-ferðaappinu. Þetta app veitir aðgang að stuðningi og gefur þátttakendum tillögur varðandi ferðaleiðir og undirbúning ferðarinnar. Rafrænt afsláttarkort (Evrópska ungmennakortið) verður öllum þátttakendum aðgengilegt í appinu.

Hinir völdu umsækjendur geta valið hvenær þeir virkja Evrópska ungmennakortið í appinu (eftir því hvenær þeir ferðast) og gildir kortið þá í eitt ár frá þeirri stundu.

Með kortinu fæst aðgangur að allskyns afsláttum og hagræði hvar sem er í aðildarlöndum Erasmus+ áætlunarinnar. Afsláttarkort sem hinir völdu þátttakendur kaupa beint, fást ekki endurgreidd. 

Verktakinn velur þá flutningsaðila sem eru hagstæðastir og mest viðeigandi.

Að öllu jöfnu stendur tvenns konar ferðatilhögun hinum völdu umsækjendum til boða:

Sveigjanleg ferðatilhögun

Fastákveðin ferðatilhögun

Dagsetningarnar sem hinir völdu umsækjendur geta ferðast á verða sveigjanlegar allt þar til ferðapassinn og valdir ferðadagar hafa verið virkjaðir af umsækjandanum. 

Hins vegar munu hinir völdu umsækjendur gefa verktakanum upp ferðaáætlunina sem þeir óska sér með fastákveðnum dögum og með fyrirfram ákveðnum ákvörðunarstöðum. Ekki verður hægt að breyta ferðadögunum né ákvörðunarstöðunum eftir að slíkur fastákveðinn farseðill hefur verið bókaður. Ferðin skal standa yfir á bilinu frá einum degi og upp í heilan mánuð.

Hinir völdu umsækjendur geta verið á ferðalagi í einn mánuð að hámarki, þar sem fjöldi ferðadaga (7) er fastákveðinn. Þetta þýðir að að þeir geta ferðast með lestum á hvaða 7 dögum sem er innan tímabilsins í heild, sem er einn mánuður að hámarki. Sveigjanlegi ferðamátinn gefur hinum völdu umsækjendum kost á að ferðast til allra þeirra gjaldgengu landa sem þá langar til að heimsækja.

Þeir umsækjendur sem valdir hafa verið geta ferðast til allt að 2 landa sem eru hluti af Evrópusambandinu, eða til þriðju landa sem eru aðilar að Erasmus+ áætluninni (sjá 2. lið) á þeim tímapunkti þegar val þátttakendanna fer fram (til þeirra teljast þó ekki brottfararlandið eða lönd sem farið er um) og má ferðin standa yfir í allt að einn mánuð að hámarki.

Um leið og búið er að virkja ferðapassann geta hinir völdu umsækjendur lagt af stað og ferðast á samfelldum dögum eða kosið að dreifa ferðadögunum sjö á eins mánaðar tímabil. Þeir geta ferðast með hvaða lestum sem er á vegum evrópskra járnbrautarfyrirtækja og þar að auki vissum ferjum og öðrum samgöngutækjum sem valin eru af verktakanum, sem framkvæmdastjórnin og EACEA tilnefndi. Vinsamlegast athugið að í sumum lestum getur verið skylda eða val að bóka sæti. Slíkar sætabókanir eru ekki innifaldar í Sveigjanlega ferðapassanum. Athugið að kostnaðurinn við slíkar sætabókanir, eða önnur útgjöld sem til falla í ferðinni, fást ekki endurgreidd hjá framkvæmdastjórninni eða EACEA.  

Allur bókunarkostnaður er innifalinn í fastákveðnu ferðatilhöguninni en þar gildir þó visst þak á útgjöldin, að upphæð 273,35 evrur, sem þarf að virða. Umsækjendurnir sem valdir hafa verið þurfa sjálfir að ganga úr skugga um það hvort ferðaáætlun þeirra sé raunhæf.

 

Vegna þeirra þátttakenda á listanum yfir valda, sem kjósa sveigjanlega ferðamátann:

Þeir þátttakendur á listanum yfir valda, sem kjósa sveigjanlega ferðamátann, munu hafa frest til 31. mars 2024 til þess að virkja ferðapassann sinn. Eftir að ferðapassinn er virkjaður er enn hægt að breyta ferðadögum til loka ferðatímabilsins (þ.e. 01/03/2024-31/05/2025), ef þörf krefur. 
Ef þátttakendur virkja ekki ferðapassann innan tiltekins frests, þá má fella hann úr gildi og bjóða umsækjendum af biðlistanum passann. 

*Virkjun ferðapassans: í DiscoverEU Travel appinu þarftu að staðfesta vegabréfið þitt, auðkenni eða búsetukort og til þess að skipuleggja eins mánaðar gildistíma passans. Athugaðu að þótt evrópska ungmennakortið (EYCA) sé virkjað í ferðaappinu, þá þýðir það ekki að sjálfur ferðapassinn sé virkjaður.

**Ferðadagarnir: teljast þeir dagar þar sem ferðast var í raun og veru á þeim heila mánuði sem hinn sveigjanlegi ferðapassi heimilar.

Fyrir báða valkostina:

Óheimilt er að hrófla við ferðaáætluninni. Athugið að kostnaðurinn við slíkar sætabókanir, eða önnur útgjöld sem til falla í ferðinni, fást ekki endurgreidd hjá framkvæmdastjórninni eða EACEA. 

Þeir völdu umsækjendur sem vilja ferðast til Kýpur, Íslands, Írlands eða Möltu ættu að láta verktakann vita eftir að hið sérstaka símtal til allra valinna og bókaðra þátttakenda hefur átt sér stað. Kvótanum sem minnst var á í kaflanum "Landskvótar" á Evrópsku ungmennagáttinni verður beitt á þá sem ferðast frá Kýpur, Íslandi, Írlandi eða Möltu. Þessum kvóta verður í hæsta lagi beitt þrisvar sinnum vegna þeirra völdu umsækjenda sem vilja ferðast til Kýpur, Íslands, Írlands eða Möltu. Flugfarseðlarnir til þessara tilteknu áfangastaða verða bókaðir af verktakanum á grundvellinum "fyrstur kemur, fyrstur fær". Hinir völdu umsækjendur ættu alls ekki að greiða sjálfir fyrir þá farseðla.

Undanþágu frá kröfunni um ferðatímabilið verður beitt vegna ungs fólks sem býr í landi sem er hluti af Evrópusambandinu eða þeim þriðju löndum sem tengjast Erasmus+ áætluninni (sjá 2. lið), með skyldubundinni borgaralegri þjónustu eða herþjónustu. Í slíkum tilvikum verður ferðatíminn framlengdur í 6 mánuði eftir að lagalegum skyldum þeirra lýkur.

 

9. Farartæki

Að vísu munu valdir þátttakendurnir yfirleitt ferðast með járnbrautum. Þó eru möguleikar á öðrum ferðamáta ef nauðsyn krefur, s.s. ferjum og langferðabílum, til að tryggja eins breiðan aðgang að verkefninu og unnt er, en einnig eru umhverfislegir þættir, tími og vegalengdir tekin með í reikninginn. Aðeins verður ferðast á öðru farrými. 
Aðeins í undantekningartilfellum er heimilt að ferðast með flugi, og þá verður það skipulagt fyrir valda umsækjendur. Þetta á við um þau ungmenni sem búsett eru:

  1. á fjarlægustu svæðunum níu (þ.e. Gvadelúpeyjum, Frönsku Gvæjönu, Martiník, Réunion, Mayotte, Sankti-Martin, Madeiru, Asoreyjum og Kanaríeyjum);
  2. Í ríkjum og á yfirráðasvæðum ESB handan hafsins (Arúba, Bonaire, Curaçao, Frönsku Pólýnesíu, Grænlandi, Nýju Kaldedóníu, Saba, Sankti Bartólómeusareyjum, Sankti Estatíusey, Sankti Maarten, Sankti Pierre og Miquelon, Wallis- og Fútúnaeyjum)
  3. Í þeim löndum eða á þeim svæðum sem ekki eru aðgengileg með ofangreindum ferðamáta (járnbrautarkerfum, ferjum eða rútum);
  4. Eða þegar ungmenni þurfa að ferðast í meira en 18 klukkustundir, hvort heldur sem er á sjó eða landi, áður en þau komast að landamærum síns búsetulands.

Þá er það eingöngu flug þeirra að heiman og heim aftur sem kemur til greina. Hvað allar aðrar ferðir áhrærir, þá er ætlast til þess, samkvæmt aðalreglu verkefnisins, að þátttakendurnir ferðist með lestum eða öðrum álíka flutningsmáta.  

Þau ungmenni sem búa á ystu landssvæðum Evrópusambandsins og í ríkjum og á yfirráðasvæðum þess handan hafsins geta valið sér hvern þann áfangastað sem uppfyllir gefnar kröfur. Sömuleiðis geta þeir völdu umsækjendur sem langar til að ferðast til ystu svæða eða landa og yfirráðasvæða handan hafsins (YHH) gert það ef ferðakostnaðurinn fellur innan 273,35 evru markanna.

Þeir völdu umsækjendur sem búsettir eru annaðhvort á Kýpur, Íslandi, Írlandi eða Möltu geta ferðast flugleiðis til meginlands Evrópu (flugið heim verða þau sjálf að skipuleggja).

 

10. Hámarksverðmæti farseðla

Hinir völdu umsækjendur munu eingöngu fá ferðapassann sem þeir kusu sér og Evrópska ungmennakortið. Hinir völdu umsækjendur þurfa sjálfir að standa straum af gistingu, fæði, tryggingum, aukalegum ferðaútgjöldum og hvers kyns öðrum kostnaði í tengslum við ferðina.

Grunnreglan er sú að hver valinn þátttakandi eigi rétt á ferðapassa að verðmæti 273,35 evrur. Aðeins verður ferðast á öðru farrými. Hins vegar getur sú upphæð verið hærri í þeim sérstökum tilvikum sem talin eru upp hér á eftir:

  • Vegna ferðalaga þeirra ungmenna sem búa á ystu svæðum ESB eða yfirráðasvæðum handan hafsins til meginlands Evrópu. En um leið og þau eru komin til meginlands Evrópu, þá tekur grundvallarreglan aftur gildi.
  • Fyrir vissa valda umsækjendur sem búa annars staðar en á ofangreindum landssvæðum og eiga ekki annarra kosta völ en að ferðast flugleiðis til meginlands Evrópu. En um leið og þau eru komin til meginlands Evrópu, þá tekur grundvallarreglan aftur gildi.
  • Í vissum tilfellum sem metin verða hvert fyrir sig (t.d. vegna valdra umsækjenda sem búa á öðrum eyjum þeirra landa sem tengjast Erasmus+ áætluninni) gæti upphæðin náð yfir aukaferð með lest, flugi eða rútu.

Fyrir hreyfihamlaða og/eða aðila með sérþarfir: kostnaður vegna sérstakrar aðstoðar (fylgdarmaður, hundur fyrir sjónskerta þátttakendur, o.s.frv.) gæti verið greiddur á grundvelli viðeigandi vottorða sem staðfesta sérþarfir viðkomandi, allt eftir því hvers krafist er samkvæmt landslögum búsetulandsins.

 

11. Tímaáætlun til viðmiðunar

Opnunardagur skráninga

4. október 2023 kl. 12:00:00 (12:00:00 á hádegi að staðartíma í Brussel)

Lokadagur skráninga

18. október 2023 kl. 12:00:00 (12:00:00 á hádegi að staðartíma í Brussel)

Dómnefndin

Nóvember 2023

Niðurstöðurnar tilkynntar

Janúar 2024

Fyrsti brottfarardagur

1. mars 2024

Síðasti heimkomudagur

31. maí 2025

 

12. Afturköllun eða niðurfelling ferðar valins þátttakanda

Sérhver ferðapassi verður skráður á visst nafn og óheimilt er að framselja hann til annars einstaklings. Ekki er hægt að breyta nafninu sem stendur á ferðapassanum.

Valinn þátttakandi þarf að virkja ferðaleyfi sitt fyrir lokafrestinn 31. mars 2024. Ef ferðapassinn hefur ekki verið virkjaður fyrir þann tíma, þá er verktakanum sem framkvæmdastjórnin og EACEA tilnefndu, heimilt að fella hann úr gildi og endurúthluta honum til annars þátttakanda af biðlistanum, í stiglækkandi forgangsröð.

Ef einhver valinn þátttakandi hafnar þátttöku, af hvaða ástæðu sem er, gagnvart verktakanum sem framkvæmdastjórnin og EACEA tilnefndu, eftir að sá hafði bókað ferðapassann, þá verður sæti hans úthlutað til einhvers annars af biðlistanum, í stiglækkandi forgangsröð. Valdir umsækjendur eru hvattir til að láta verktakann vita áður en eitthvað er bókað.

Ef meðlimur í hópi (leiðtogi eða venjulegur meðlimur) hættir við að ferðast áður en verktaki framkvæmdastjórnarinnar og EACEA hefur bókað ferðapassann, þá mun sú afpöntun hans ekki stofna ferðalagi hinna meðlima hópsins í hættu. Þeir meðlimir hópsins sem eftir standa geta samt sem áður ferðast eins og ekkert hafi í skorist. Hins vegar er ekki hægt að skipta um þann sem hætti við. Þá verður afbókaða ferðapassanum úthlutað til einhvers annars af biðlistanum, í stiglækkandi forgangsröð

Það er viðurkennt að sumir meðlimir hóps kunna ef til vill að ákveða að ferðast áfram einir síns liðs, en það mun ekki hafa áhrif á allan hópinn.

Ferðapassanum fæst hvorki skipt né fæst hann endurgreiddur. Sveigjanlegi ferðapassinn býður upp á opinn upphafsdag, sem gerir ferðalöngunum kleift að breyta brottfarardagsetningunni hvenær sem er fyrir þann dag sem tilgreindur er sem brottfarardagurinn.

Hins vegar lýtur allt fyrirkomulag ferðarinnar samkvæmt föstu ferðaáætluninni, svo sem afpantanir eða breytingar á ferðatilhögun, kvöðum og skilmálum flutningsaðilans og þau útgjöld sem af því hljótast þarf umsækjandinn að bera.

 

13. Óviðráðanlegar aðstæður

Ef truflun verður á ferðinni vegna ófyrirsjáanlegra og sérstakra aðstæðna eða atburða sem þátttakendurnir geta ekki haft nein áhrif á, og er heldur ekki hægt að rekja til mistaka eða gáleysis af þeirra hálfu, þá er hægt að gefa út nýjan ferðapassa. Verktaki framkvæmdastjórnarinnar og EACEA mun vega og meta sérhvert slíkt tilfelli út af fyrir sig.

 

14. Ferðasagan rakin

Framkvæmdastjórnin vill endilega heyra frá því unga fólki sem lagði af stað í ferðalag á vegum DiscoverEU og hvetur þau til þess að deila upplifun sinni og ævintýrum með öðrum. Þess vegna eru allir þeir sem valdir eru til þátttöku í verkefninu gerðir að svokölluðum DiscoverEU-sendiherrum. Þeir eru hvattir til þess að deila ferðasögu sinni sem allra víðast, t.d. á helstu samfélagsmiðlum eða með því að að halda kynningu í skólanum sínum eða næstu félagsmiðstöð. DiscoverEU ferðaappið gerir þátttakendum kleift að búa til sitt eigið kort yfir farinn veg og bæta inná það tölulegum upplýsingum (t.d. fjölda þeirra lesta sem ferðast var með, hversu mörg lönd voru heimsótt eða hver kolefnisjöfnunin var). Því má síðan deila á samfélagsmiðlum í lok ferðarinnar. 

Auk þess er þátttakendunum velkomið að ganga í opinbera #DiscoverEU Facebook-hópinn. Ungu ferðalangarnir verða einnig beðnir um að taka þátt í könnun á netinu sem verktaki framkvæmdastjórnarinnar og EACEA sendir út þegar ferðatímabilinu er lokið. Þegar því er lokið berst ferðalöngunum sjálfvirkur póstur með þátttökuvottorði þar sem tilgreind er sú hæfni og færni sem þeir öfluðu sér með ferðalaginu.

 

15. Vegabréfsáritanir 

Allt eftir því hvert ríkisfang þitt er og hverjar ferðaáætlanir þínar eru (svæði utan Schengen), þá geturðu þurft að afla þér einnar eða fleiri vegabréfsáritana. Það er ætíð í verkahring viðkomandi ríkis að gefa út slíkar vegabréfsáritanir. Við ráðleggjum þátttakendum að afla sér sjálfir upplýsinga um þetta atriði hjá opinberum aðilum og senda umsóknir sínar inn með góðum fyrirvara. Öflun vegabréfsáritana getur nefnilega tekið margar vikur. DiscoverEU-ferðaappið og þjónustuborðið þar veita aðstoð í þessum efnum. Sem breytir því þó ekki að það eru þátttakendurnir sjálfir sem bera ábyrgð á því að hafa gögn sín í lagi áður en ferðin hefst. 

Framkvæmdastjórn ESB, EACEA og verktakinn eru ekki í þeirri stöðu að geta haft áhrif á ákvarðanir landsyfirvalda varðandi vegabréfsáritanir.

DiscoverEU greiðir kostnaðinn sem tengist vegabréfsárituninni. 

Í þeim tilfellum þar sem þess er krafist að sjúkratryggingar séu fyrir hendi til þess að vegabréfsáritun fáist gefin út, þá mun verktakinn annast það. DiscoverEU greiðir kostnaðinn sem tengist því.  

 

16. Tryggingar

Hinum völdu umsækjendum er ráðlagt að afla sér viðeigandi sjúkra- og ferðatrygginga sem ná yfir allt ferðatímabilið. Venjulega tryggja almennar sjúkratryggingar heimalandsins þátttakendurna meðan á ferðalaginu stendur gegnum Evrópska sjúkratryggingakortið. 

Hinsvegar dekkar Evrópska sjúkratryggingakortið eða heilsutrygging hjá einkareknu fyrirtæki ekki öll hugsanleg tilfelli, einkum og sér í lagi heimflutning eða ef þörf er á aðkomu sérfræðilækna. Í slíkum tilfellum er ráðlegt að afla sér viðbótartrygginga.  

 

17. Fyrirvarar

Framkvæmdastjórnin, EACEA og verktaki þeirra munu eingöngu sjá um að útvega ferðapassana, evrópska ungmennakortið og, eftir því sem við á, greiða kostnað vegna útgáfu vegabréfsáritana, eins og útskýrt var hér á undan. Hinir völdu umsækjendur þurfa því sjálfir að standa straum af gistingu, fæði, tryggingum, aukalegum ferðaútgjöldum eða hvers kyns öðrum kostnaði í tengslum við ferðina.

Framkvæmdastjórnin, EACEA og verktaki þeirra skulu ekki sæta ábyrgð fyrir neitt það tjón sem hinir völdu þátttakendur í keppninni valda eða verða fyrir, þar með talið tjón sem þriðju aðilar valda eða verða fyrir og er afleiðing af hinum styrktu aðgerðum, eða skapast meðan á þeim stendur.

Framkvæmdastjórnin, EACEA og verktaki þeirra skulu ekki sæta ábyrgð fyrir neitt efnislegt, óefnislegt eða líkamlegt tjón sem hinir völdu þátttakendur verða fyrir eða þeir sem með þeim eru á ferðalagi þeirra eða meðan á dvöl þeirra stendur.

Ferðalagið sem til stendur að fara í er háð takmörkunum sem tengjast fjárhagsáætluninni, tímamörkum og fáanlegum pössum. Þess vegna getur það verið breytingum undirorpið og utanaðkomandi verktakinn, sem framkvæmdastjórnin og EACEA kusu til starfans, getur ekki ábyrgst að hin fyrirhugaða ferð geti farið fram eins og áætlað var.

Hinum völdu umsækjendum er ráðlagt að afla sér viðeigandi sjúkra- og ferðatrygginga sem ná yfir allt ferðatímabilið. Venjulega tryggja almennar sjúkratryggingar heimalandsins þátttakendurna meðan á DiscoverEU ferðalaginu stendur gegnum Evrópska sjúkratryggingakortið. Hinsvegar dekkar Evrópska sjúkratryggingakortið eða heilsutrygging hjá einkareknu fyrirtæki ekki öll hugsanleg tilfelli, einkum og sér í lagi heimflutning eða ef þörf er á aðkomu sérfræðilækna. Í slíkum tilfellum er ráðlegt að afla sér viðbótartrygginga.

Framkvæmdastjórnin og EACEA áskilja sér rétt til þess í undantekningatilfellum að breyta reglunum sem settar eru fram í 10. og 11. lið.

 

18. Gildandi lög

Keppni þessi heyrir undir löggjöf ESB. Dómstóll Evrópusambandsins skal hafa óskerta lögsögu í hverjum þeim ágreiningi sem upp kann að koma milli sambandsins og hvaða styrkþega sem er, að því er varðar túlkun, beitingu eða gildi reglna þessarar keppni, ef ógerningur reynist að leysa úr ágreiningnum á vinsamlegum nótum.

 

19. Gagnavernd

Gögn sem beðið er um verða eingöngu notuð til þess að velja umsækjendur, til þess að bóka farseðla þeirra og veita þeim þjónustu sem tengist DiscoverEU, á borð við DiscoverEU-fræðsluferlið eða kynningarátak DiscoverEU. Í því tilfelli getur þátttakandinn átt von á því að framkvæmdastjórnin og aðrar stofnanir sem viðurkenndar eru af henni sem og EACEA, landsskrifstofur Erasmus+ og Eurodesk hafi samband við hann.

Öll meðferð framkvæmdastjórnarinnar og EACEA á persónuupplýsingum verður í samræmi reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2018/1725 frá 23. október 2018 (um niðurfellingu reglugerðar (EB) nr. 45/2001) og í samræmi við „tilkynningar um hvernig gagnavinnslu skuli háttað“ til persónuverndarfulltrúa framkvæmdastjórnarinnar (aðgengilegt almenningi í skrá persónuverndarfulltrúans). Slík gögn verða meðhöndluð af "gagnavörðum" framkvæmdastjórnarinnar og EACEA vegna keppninnar, útfærslu hennar og eftirvinnslu eða til verndar fjárhagslegum hagsmunum ESB.

Í persónuverndaryfirlýsingu DiscoverEU er umsækjendunum greint frá því hvernig persónuupplýsingar eru nýttar í tengslum við verkefnið og hvernig þau persónulegu gögn eru vernduð. Persónuverndaryfirlýsingu DiscoverEU má finna á eftirfarandi tengli: https://europa.eu/youth/privacy_en.

Umsækjendur eiga rétt á því hvenær sem er, að snúa sér til Evrópsku persónuverndarstofnunarinnar með ágreiningsmál sín.

 

20. Kvartanir

Kvörtunareyðublað verður aðgengilegt á vefsíðu verktakans sem framkvæmdastjórnin og EACEA tilnefna til að sjá um ferðabókanirnar. Þeir umsækjendur sem valdir hafa verið verða látnir vita af þessum möguleika um leið og passar þeirra verða bókaðir.