Skip to main content

DiscoverEU

Höldum upp á 40 ára afmæli Schengen með 40.000 ferðapössum!

Finding new teammates starts here

Reglur um kall eftir umsóknum í DiscoverEU¹

 

1. Lýsing

DiscoverEU er verkefni á vegum Erasmus+ áætlunarinnar (2021-2027). Tilgangurinn með því er að bjóða ungu fólki á aldrinum 18 ára uppá að öðlast ferðareynslu sem mun efla tilfinningu þeirra fyrir því að tilheyra Evrópusambandinu, gera því kleift að kanna fjölbreytni Evrópu, menningararfleifð álfunnar og sögu hennar, mynda tengsl við fólk frá öllum heimsálfum og loks að uppgötva sjálfan sig. 

Haustið 2025 hyggjast framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og framkvæmdaskrifstofa mennta- og menningarmála (EACEA) veita um 35.000 ungmennum ferðapassa² og afsláttarkort til að kanna Evrópu. Fjárveiting til þessarar umsóknarlotu nemur allt að 21.730.000,00 evrum.

Ungmennin geta sótt um á Evrópsku ungmennagáttinni. 

Umsóknartímabilið á að standa frá 30. október kl. 12:00 (á hádegi í Brussel) til 13. nóvember 2025, kl.12:00 (á hádegi í Brussel). 

Hlutskörpum umsækjendum verður afhentur ferðapassi til að kanna Evrópu á tímabili sem spannar nokkra mánuði og hefst vorið 2026. Á þessu ferðatímabili geta þátttakendur ferðast að hámarki í einn mánuð. Þegar hlutskörpum umsækjendum hefur verið úthlutað ferðapassa teljast þeir vera þátttakendur.³ 

Þátttakendur munu að jafnaði ferðast með umhverfisvænstu samgöngumátunum. Til að tryggja sem breiðastan aðgang að þessari aðgerð eru aðrir ferðamátar mögulegir ef nauðsynlegt er og jafnframt eru tekin með í reikninginn umhverfissjónarmið, tími og vegalengdir.

Í undantekningartilvikum, og þegar engin önnur samgöngutæki eru í boði, þá verður unga fólkinu boðið uppá að ferðast með flugvél. Þetta mun tryggja að ungt fólk sem býr á afskekktum svæðum eða á eyjum hafi einnig tækifæri til að taka þátt í DiscoverEU. 

Þátttakendurnir fá einnig afhent DiscoverEU-afsláttarkort. Kortið veitir ungu fólki afslátt á gistingu, heimsóknum og þátttöku á sviði menningar, námi, íþróttum, nærsamgöngum, mat, o.fl. 

 

2. Gjaldgengir umsækjendur

Til að vera gjaldgengir verða umsækjendur að:

  • -hafa átt eða eiga 18 ára afmæli á tímabilinu 1. janúar 2025 til 31. desember 2025, þ.e. ungmenni sem eru fædd á tímabilinu 1. janúar 2007 til 31. desember 2007 (að báðum dögum meðtöldum);
  • vera borgarar eða búsettir í einu af:
    • hinum 27 aðildarríkjum Evrópusambandsins, þ.m.t. ystu svæðum þess (frönsku Gvæjana (FR), Gvadelúpeyjum (FR), Martiník (FR), la Réunion (FR), Mayotte (FR), Saint-Martin (FR), Asoreyjum (PT), Madeiru (PT) og Kanaríeyjum (ES)) eða
    • hinum 27 aðildarríkjum Evrópusambandsins sem og með búsetu í einu af löndum og yfirráðasvæðum handan hafsins (e. Overseas Countries and Territories, OCTs) tengdum Evrópusambandinu: Arúba (NL), Bonaire (NL), Curação (NL), Frönsku Pólýnesíu (FR), Frönsku landsvæði í Suðri- og Suðurskautslandinu (FR), Grænlandi (DK), Nýju-Kaledóníu (FR), Saba (NL), Sankti Bartólómeusareyjum (FR), Sint Maarten (NL), Sankti Pierre et Miquelon (FR), Wallis og Futunaeyjum (FR), eða
    • þeim þriðju löndum sem tengjast Erasmus+ áætluninni: Íslandi, Liechtenstein, Norður-Makedóníu, Noregi, Serbíu eða Tyrklandi.
  • fylla út rétt nafn sitt og kennitölu samkvæmt nafnskírteini (ID) eða vegabréfsnúmer eða búsetuleyfisnúmer á umsóknareyðublaðinu.
  • -fallast á Drengskaparyfirlýsinguna á umsóknareyðublaðinu.

Hlutskarpir þátttakendur geta því aðeins ferðast að þeir: 

  • hefji ferð sína í einhverju þeirra landa sem uppfylla skilyrði DiscoverEU (sjá hér að framan);
  • hyggist ferðast allt frá einum dagi og uppí einn mánuð, að báðum meðtöldum;
  • ætli að ferðast til a.m.k. eins erlends lands sem uppfyllir skilyrði DiscoverEU (sjá hér að framan);

Umsækjendur sem ekki uppfylla skilyrðin um gjaldgengi verða ekki teknir til greina við úthlutunina. 

 

3. Umsóknarferlið

DiscoverEU-umsóknarlotan er aðgengileg um sérstakt netlægt umsóknareyðublað á Evrópsku ungmennagáttinni. Hvorki verður hægt að leggja fram umsókn fyrir né eftir umsóknartímabilið sem tilgreint er í 1. lið.

Það eru 7 þrep í þessu umsóknarferli:

  1. Fyrst þarf að ganga úr skugga um að umsækjendur séu gjaldgengir, sem þýðir að þeir eru beðnir um að gefa upp fæðingardag sinn, búsetu og ríkisfang. Ef gögnin reynast ekki vera í samræmi við þær reglur um gjaldgengi sem taldar eru upp í 2. lið undir „gjaldgengir umsækjendur“, þá geta þeir ekki haldið áfram með næsta skref. Þeir verða einnig beðnir um að fallast á Drengskaparyfirlýsinguna og reglur DiscoverEU um kall eftir umsóknum, ennfremur að samþykkja að persónuupplýsingar þeirra verði geymdar og unnar í tengslum við kall eftir umsóknum í DiscoverEU og fallast á að haft verði samband við þá í tengslum við DiscoverEU af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og stofnunum sem framkvæmdastjórnin hefur viðurkennt í sama tilgangi, svo og af EACEA, landsskrifstofum Erasmus+ og Eurodesk. Umsækjendur verða að fallast á að gerast Sendiherrar DiscoverEU.⁴
  2. Umsækjendur þurfa að gera grein fyrir því hvort þeir vilji ferðast einir síns liðs eða í hópi að hámarki 5 manns.
  3. Umsækjendur þurfa að gefa upp gilt tölvupóstfang. Að svo búnu munu þeim berast sjálfvirkur tölvupóstur frá Evrópsku ungmennagáttinni til þess að staðfesta hvort netfangið sé gilt. Þessi staðfesting er nauðsynleg í ljósi þess að samskipti við umsækjendur eftir úthlutun fara fram um tölvupóst. Með því að biðja umsækjendur um að staðfesta tölvupóstfang sitt munu framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og Framkvæmdastofnun Evrópu (EACEA) koma í veg fyrir óleyfilega notkun annarra á tölvupóstföngum.  
  4. Eftir staðfestinguna á netfangi sínu, þá þarf unga fólkið að fylla út umsóknareyðublaðið. Í fyrsta lagi verður það að gefa upp persónuupplýsingar sínar: ríkisfang, fæðingardag og -ár, fornafn, eftirnafn, kyn, netfang, símanúmer, búsetuland, svæði, starf og númer á nafnskírteini (ID), vegabréfi eða búsetuskírteini. Vegna ungs fólks með skerta hreyfigetu eða fötlun, þá getur þurft að taka fram á hvaða sérþjónustu það þarf á að halda.
  5. Þegar persónuupplýsingar hafa verið veittar þurfa umsækjendur að svara fimm fjölvalsspurningum um almenna þekkingu á Evrópusambandinu og um önnur framtaksverkefni Evrópusambandsins sem beinast að ungu fólki. Loks verða þau beðin um að svara einni aukaspurningu. Aukaspurningin krefst matsmiðaðs svars frá umsækjendum og markmiðið með henni er að ákvarða uppröðun þeirra umsækjenda sem gáfu rétt svör við krossaspurningunum fimm. Þegar umsóknarfrestinum er lokið eru svörin við aukaspurningunni dregin út úr umsóknarkerfinu. Umsækjendum sem gáfu rétt svör við krossaspurningunum fimm verður síðan raðað eftir svari þeirra við aukaspurningunni: röðun þeirra ræðst af því hve nálægt þeir voru að svara aukaspurningunni rétt. Úthlutað verður til umsækjenda eftir því sem fjárveitingin leyfir og þeim verður raðað eftir því hve rétt svörin eru. Ef svör reynast jafngild mun framkvæmdastjórn Evrópusambandsins/EACEA beita sem síðasta úrræði reglunni „fyrstur kemur fyrstur fær“ til að ákvarða röðunina.
  6. Umsækjendur eru beðnir um að gefa viðbótarupplýsingar um ferðaáætlanir sínar (þ.e. hvenær þeir ætla að hefja ferð sína, hvort það sé í fyrsta skipti sem þeir ferðast einir án foreldra sinna, hvað þeir vilja helst læra af þessari reynslu sinni, hvernig þeir koma til með að fjármagna kostnað á borð við gistingu, uppihald, grunntryggingar o.s.frv. á meðan á ferðinni stendur og hvernig þeir uppgötvuðu DiscoverEU). Upplýsingarnar sem færðar eru inn undir þeim lið eru ekki bindandi og hafa engin áhrif á úthlutunarferlið. Þau gögn, sem safnað hefur verið á þann hátt, verða notuð í tölfræðilegum tilgangi og sem upplýsingar fyrir framkvæmdastjórnina og EACEA í því skyni að betrumbæta DiscoverEU.  
  7. Áður en umsækjendur senda inn umsóknina sína eru þeir beðnir um að fara yfir og staðfesta útfyllt umsóknareyðublaðið. Ekki er hægt að breyta svörum við krossaspurningunum og aukaspurningunni eftir að umsókn hefur verið lögð fram. Beiðnir um að afturkalla umsókn verða ekki teknar til meðferðar fyrr en eftir að umsóknartímabilinu lýkur.
  8. Að svo búnu mun öllum umsækjendum berast sjálfvirkur tölvupóstur frá Evrópsku ungmennagáttinni, eftir að hún hefur meðtekið umsókn þeirra. Í tölvupóstinum kemur fram að umsóknin hafi verið skráð og hann hefur einnig að geyma umsóknarkóðann og upplýsingar um hvenær úrskurður um úthlutun verður tilkynntur.

Umsækjendur þurfa að passa vel upp á umsóknarkóðann því hann þarf að nota við öll frekari samskipti. Ef einhver umsækjandi vill bjóða öðru fólki að ganga í sinn hóp, þá verður hann eða hún þar með leiðtogi hópsins og verður þá að miðla kóðanum sínum til annarra meðlima hópsins svo þeir geti skráð sig. Aðrir meðlimir hópsins verða síðan að skrá sig á netinu út frá kóðanum sem leiðtogi hópsins miðlaði þeim, og gefa upp persónuupplýsingar sínar. 

Þrátt fyrir að umsækjendur hafa gefið til kynna að þeir vilji helst ferðast einir síns liðs, þá geta þeir samt bætt vinum við umsókn sína eftir afhendingu hennar og fyrir lokafrestinn, og þá tekur við sama málsmeðferð sem rakin var hér að framan. 

Vinsamlegast athugið að meðlimir hópsins þurfa ekki að taka þátt í spurningakeppninni eða svara aukaspurningunni, aðeins leiðtogi hópsins þarf að gera það. Hins vegar þurfa þeir samt sem áður að fylla út persónuupplýsingar til þess að unnt sé að staðfesta umsóknir þeirra. Meðlimir í hóp verða að uppfylla sömu skilyrði um gjaldgengi. 

Hópumsókn verður metin eins og um eina umsókn sé að ræða. Aðeins þeir hópmeðlimir sem hafa fyllt út umsóknareyðublaðið með því að nota kóðann frá hópstjóranum verða teknir til greina þegar að úthlutun kemur. Meðlimir hópsins skulu ekki skrá sig hver fyrir sig. 

Hópar geta samanstaðið af einstaklingum með ólík ríkisföng og búandi á ólíkum stöðum.

Aðeins er heimilt að leggja fram eina umsókn fyrir hvern einstakling í sömu umsóknarumferð. Fyrsta umsóknin sem skráð er í Evrópsku ungmennagáttina verður sú eina sem tekin er til greina við úthlutunina. Einstaklingar geta ekki sótt um í mismunandi hópum. Ef fleiri en ein umsókn finnst á einhverju stigi umsóknarferlisins verður aðeins fyrsta skráða umsóknin í Evrópsku ungmennagáttina tekin til athugunar og öðrum umsóknum verður hafnað. 

Ungmenni sem þegar hafa bókað DiscoverEU ferðapassa í fyrri umsóknarumferðum eru ekki gjaldgeng til að leggja fram nýja umsókn. Þetta verður athugað á fyrsta umsóknarstigi og nýrri umsókn eða umsóknum verður hafnað. Ef umsóknir berast frá ungu fólki, sem hlaut DiscoverEU ferð við einhverja af fyrri úthlutunum, uppgötvast við eitthvert seinni tíma umsóknarferli, annaðhvort af verktakanum sem framkvæmdastjórnin og EACEA tilnefndi til þess að sjá um ferðabókanir eða af framkvæmdastjórninni og EACEA sjálfum, þá verða slíkir umsækjandur dæmdir úr leik

 

4. Úthlutunarferli

Hlutskarpir umsækjendur fá afhentan ferðapassa í samræmi við skilyrðin í 244. gr.⁵

Vissum kvóta af ferðapössum er úthlutað til hvers lands fyrir sig. Meginreglan við úthlutunina byggist á Erasmus+-áætluninni, lykilaðgerð 1, dreifingarlyklinum hreyfanleiki einstaklinga „ungmenni“.⁶ 

Úthlutunin miðast við þá búsetu sem umsækjandinn tilgreinir á umsóknareyðublaðinu. Ef hinsvegar um er að ræða færri umsækjendur frá vissum löndum heldur en tiltækir ferðapassar til þeirra segja til um, þá verður þeim sem eftir standa dreift á þau lönd þar sem þátttakendur eru fleiri heldur en úthlutaður kvóti þess var.

Búseta leiðtoga hópsins mun skera úr um hvaða búseta verður lögð til grundvallar við útreikning kvótans. Komi hópur síðast á lista tiltekins lands yfir hlutskarpa umsækjendur og kvóta þess lands er náð er allur hópurinn tekinn með í reikninginn við úthlutunina.

Umsækjendur verða fyrst að standast skilyrði um gjaldgengi, þ.e. með tilliti til fæðingardags og búsetu eða ríkisfangs sem um getur í 2. og 3. lið. Vinsamlegast athugið að þetta verður metið sjálfkrafa á meðan á umsókn stendur, en gögnin sem afhent voru verða skoðuð uppá nýtt að úthlutun lokinni af verktakanum sem framkvæmdastjórnin og EACEA tilnefna til að sjá um ferðabókanirnar. Ef verktakinn kemst að því, þegar hann kannar nafnskírteini, vegabréf og/eða búsetuvottorð, að umsækjandinn hefur veitt rangar upplýsingar, þá verður umsækjandinn útilokaður frá úthlutuninni.

Ef öll skilyrði um gjaldgengi eru uppfyllt þurfa umsækjendur síðan að gefa rétt svör við fjölvalsspurningunum fimm og svara aukaspurningu. Ef um er að ræða hópa, þá verður aðeins leiðtogi viðkomandi hóps krafinn um að svara krossaspurningunum fimm og aukaspurningunni. Svör hópstjórans við spurningunum fimm og aukaspurningunni gilda fyrir allan hópinn og það á einnig við um umsóknarskilatíma hópstjórans.

Umsækjendur verða flokkaðir eftir búsetu og svo raðað í samræmi við hvort krossaspurningunum fimm var svarað rétt og eftir því hvaða svar barst við aukaspurningunni.

Þegar umsóknartímabilinu er lokið skoðar matsnefndin greininguna frá Evrópsku ungmennagáttinni til að ganga frá endanlegu mati sínu.

Ef um er að ræða of margar jafngildar umsóknir (einstaklinga eða hópa) þegar kvótanum er náð mun matsnefndin beita reglunni „fyrstur kemur fyrstur fær“ til að ákvarða síðustu sætin.

 

5. Matsnefnd

Matsnefnd sem í eiga sæti fulltrúar framkvæmdastjórnarinnar og EACEA kemur saman þegar umsóknarferlinu er lokið. Þau taka ákvörðun um niðurstöðurnar á grundvelli viðmiðanna sem greint var frá hér að ofan. Þau meta og taka afstöðu um endanlega röðun þeirra umsækjenda sem fá úthlutað ferðapassa á grundvelli svaranna við krossaspurningunum og aukaspurningunni, að teknu tilliti til kvóta hvers lands og, eftir því sem við á, hvenær umsóknin barst. Matsnefndin tekur saman lista yfir umsækjendur og skiptir á aðal-, vara- og höfnunarlista. Umsækjendur á biðlistanum gætu hugsanlega fengið ferðapassa síðar ef til kemur viðbótarfjárveiting eða ef hlutskarpir umsækjendur afsala sér ferðapassanum sínum ellegar þátttakendur virkja ekki ferðapassann sinn (sjá 7. lið).

Á grundvelli matsins frá matsnefndinni samþykkir EACEA úthlutunarúrskurðinn með upplýsingum um þann heildarfjölda ferðapassa og afsláttarkorta sem úthlutað verður, um þá heildarupphæð sem varið verður í ferðapassana og afsláttarkortin, listanum yfir valda hlutskarpa umsækjendur, biðlistanum og listanum yfir þá umsækjendur sem var hafnað. 

 

6. Niðurstöðurnar tilkynntar

Í lok úthlutunarferlisins geturðu gengið úr skugga um það á Evrópsku ungmennagáttinni hvort umsókn þín hafi borið árangur með því að nota umsóknarkóðann þinn.

Þú færð einnig senda tilkynningu með tölvupósti þar sem fram kemur hvort:

  • þú hafir komist á aðallistann (árangursríkar umsóknir) eða
  • lagt hafi verið til að setja þig á biðlistann eða
  • Þú hafir ekki orðið fyrir valinu (umsóknum hafnað).

Frekari samskiptum verður síðan komið á milli verktakans sem EACEA hefur tilnefnt og þeirra umsækjenda sem urðu fyrir valinu til að undirbúa bókunina. Nánari upplýsingar um þetta má finna í 8. lið. 

 

7. Biðlistinn

Þegar þröskuldinum fyrir tiltæka ferðapassa hefur verið náð, þá er stofnaður biðlisti. Á biðlistanum er umsækjendum raðað eftir svörum þeirra við krossaspurningunum og aukaspurningunni og eftir því hvenær umsókn var skilað inn ef um er að ræða jafngildar umsóknir. EACEA getur úthlutað ferðapössum til umsækjenda sem settir eru á biðlista í eftirfarandi tilvikum: ef viðbótarfjárveiting er fyrir hendi, ef umsækjendur sem hafa orðið fyrir valinu draga umsókn sína til baka eða ef þátttakendur virkja ekki ferðapassann sinn. Þessu fyrirkomulagi má beita allt þar til hin tiltæka fjárhagsáætlun er uppurin. 

Skráning á biðlistann skapar ekki réttindi gagnvart framkvæmdastjórn Evrópusambandsins eða EACEA og tryggir ekki að viðkomandi fái úthlutað ferðapassa síðar.

Verktakinn sem EACEA tilnefnir til að skipuleggja ferðabókanir getur haft samband við umsækjendur á biðlistanum. Þeir sem haft er samband við vegna þess að þeir eru á biðlistanum geta ekki krafist endurgreiðslu fyrir ferðir sem voru bókaðar eða farnar áður en þeir fengu boðið, né heldur geta þeir óskað eftir framlengingu ferðatímabilsins.

 

8. Bókanir á farseðlum og ferðareglurnar

Þátttakendur skulu hefja ferð sína í landi sem á aðild að DiscoverEU (sjá 2. lið — gjaldgengir umsækjendur) og ferðast til a.m.k. eins lands sem á einnig aðild að DiscoverEU og er annað land en brottfararlandið. Alls getur ferðalagið staðið yfir frá einum degi minnst og upp í einn mánuð að hámarki. Ferðatímabilið á að hefjast 1. mars 2026. Ferðapassann er hægt að nota í búsetulandinu til aðeins einnar brottfarar þaðan og einnar heimfarar þangað til baka.

Bókanir, kaup og afhending ferðapassa handa hlutskörpum umsækjendum er alfarið í höndum verktakans sem EACEA tilnefnir. Hlutskarpir umsækjendur og þátttakendur eiga ekki undir neinum kringumstæðum að bóka ferðapassa eða lestar-, flug-, ferju- eða rútumiða upp á eigin spýtur eða í gegnum ferðaskrifstofu sem ekki hefur verið tilnefnd í þessu skyni af EACEA í tengslum við DiscoverEU. Passar eða miðar sem hlutskarpir umsækjendur eða þátttakendur kaupa beint verða ekki endurgreiddir.

Verktaki tilnefndur af EACEA mun hafa samband við og bjóða hlutskörpum umsækjendum að bóka ferðapassann í gegnum verktakann. Verktaki lætur ferðapassann í té ásamt aðgangi að nauðsynlegum upplýsingum til að hjálpa þátttakendum að skipuleggja og undirbúa ferðina. Hlutskörpum umsækjendum verður einnig úthlutað DiscoverEU afsláttarkortinu.

Með kortinu fæst aðgangur að allskyns afsláttum og hagræði hvar sem er í aðildarlöndum Erasmus+ áætlunarinnar. Afsláttarkort sem þátttakendur kaupa beint verða ekki endurgreidd. 

Verktakinn velur hagstæðustu og mest viðeigandi flutningsaðilana og uppfyllir skilmálana í samningnum milli hans og EACEA.

Dagsetningarnar sem þátttakandinn getur ferðast á eru sveigjanlegar þangað til ferðapassinn og valdir ferðadagar hafa verið virkjaðir af þátttakandanum. 

Þátttakendur geta ferðast: 

  • í mesta lagi einn mánuð, með ákveðnum fjölda ferðadaga.
  • á samfelldum dögum eða þeir geta dreift ferðadögum sínum á eins mánaðar tímabil.
  • til eins margra gjaldgengra landa og þeir vilja.

Óheimilt er að hrófla við ferðaáætluninni. Athugið að kostnaðurinn við slíkar sætabókanir, eða önnur útgjöld sem til falla í ferðinni, fást ekki endurgreidd hjá framkvæmdastjórninni eða EACEA. 

Hlutskarpir umsækjendur sem vilja ferðast til Kýpur, Íslands, Írlands eða Möltu þurfa að láta verktakann vita. Fyrir þá sem ferðast frá Kýpur, Íslandi, Írlandi og Möltu gildir kvótinn sem nefndur er í hlutanum Kvóti hvers lands á Evrópsku ungmennagáttinni. Fyrir hlutskarpa umsækjendur sem vilja ferðast til Kýpur, Íslands, Írlands og Möltu gildir að hámarki þrefaldur þessi kvóti. Flugmiðarnir til þessara tilteknu áfangastaða verða bókaðir á grundvellinum „fyrstur kemur fyrstur fær“ að því marki sem fjárveiting leyfir. Hlutskarpir umsækjendur og þátttakendur skulu ekki að kaupa slíka miða sjálfir.

Heimilt er að veita undanþágu frá skilyrðinu um ferðatímabil ungu fólki sem býr í landi sem er hluti af Evrópusambandinu eða þriðju löndum sem tengjast Erasmus+ áætluninni (sjá 2. lið) og þar sem skylt er að sinna samfélagslegri eða hernaðarlegri þjónustu.

 

9. Farartæki

Þátttakendur munu að jafnaði ferðast með umhverfisvænstu samgöngutækjunum. Til að tryggja sem breiðastan aðgang ætti DiscoverEU þó að bjóða upp á aðra flutningsmáta þegar nauðsyn krefur og jafnframt eru umhverfissjónarmið, tími og vegalengdir tekin með í reikninginn. Aðeins verður ferðast á öðru farrými. 

Aðeins í sérstökum tilvikum er heimilt að leyfa ferðalög með flugvél og verða þau skipulögð fyrir þá hlutskörpu umsækjendur sem um ræðir. Þetta á við um þau ungmenni sem búsett eru:

  1. Á ystu svæðunum níu (þau eru: Gvadelúpeyjar, Franska Gvæjana, Martiník, Réunion, Mayotte, Sankti Martin, Madeira, Asoreyjar og Kanaríeyjar);
  2. Í ríkjum og á yfirráðasvæðum ESB handan hafsins (Arúba, Bonaire, Curaçao, Frönsku Pólýnesíu, Grænlandi, Nýju Kaldedóníu, Saba, Sankti Bartólómeusareyjum, Sankti Estatíusey, Sankti Maarten, Sankti Pierre og Miquelon, Wallis- og Fútúnaeyjum)
  3. Í löndum/svæðum sem eru ekki aðgengileg með öðrum flutningsmátum;
  4. Eða þegar ungmenni þurfa að ferðast í meira en 18 klukkustundir, hvort heldur sem er á sjó eða landi, áður en þau komast að landamærum síns búsetulands.

Þá er það eingöngu flug þeirra að heiman og heim aftur sem kemur til greina. Það sem eftir er af ferðinni þurfa þátttakendur að ferðast samkvæmt meginreglunni.  

Þau ungmenni sem búa á ystu landssvæðum Evrópusambandsins og í ríkjum og á yfirráðasvæðum þess handan hafsins geta valið sér hvern þann áfangastað sem uppfyllir gefnar kröfur. Hlutskarpir umsækjendur sem vilja ferðast til ystu svæða eða landa og yfirráðasvæða handan hafsins (e. OCT) geta gert það ef ferð þeirra rúmast innan fjárveitingarmarkanna.

Hlutskarpir umsækjendur sem eru búsettir á Kýpur, Íslandi, Írlandi eða Möltu geta ferðast með flugvél til meginlands Evrópu. Þeir eiga ekki að kaupa flugmiða sjálfir: verktakinn sér um miðann fyrir þau fram og til baka.

 

10. Virði ferðapassans og afsláttarkortsins

Hlutskarpir umsækjendur fá einungis ferðapassa og DiscoverEU-afsláttarkortið. Kostnað vegna gistingar, framfærslu, trygginga, ferðaviðbóta eða hvers konar annan kostnað í tengslum við ferðina skulu hlutskarpir umsækjendur bera sjálfir.

Meginreglan er sú að hver hlutskarpur umsækjandi á rétt á ferðapassa og afsláttarkorti. Aðeins verður ferðast á 2. eða almennu farrými, aðallega með lestum, og ef þörf krefur með rútu, ferju eða flugvél. Verktakanum er heimilt að skipuleggja ferð með flugvél í þeim sérstöku tilfellum sem tilgreind eru hér á eftir:

  • Fyrir hlutskarpa umsækjendur sem ferðast til meginlands Evrópu frá ystu svæðum ESB og löndum og svæðum handan hafsins. En um leið og þau eru komin til meginlands Evrópu, þá tekur grundvallarreglan aftur gildi.
  • Fyrir hlutskarpa umsækjendur utan ofangreindra landfræðilegra svæða sem þurfa að ferðast með flugvél til meginlands Evrópu. En um leið og þau eru komin til meginlands Evrópu, þá tekur grundvallarreglan aftur gildi.
  • Við tilteknar aðstæður, sem meta skal í hverju tilviki fyrir sig (t.d. fyrir valda umsækjendur sem eru búsettir á öðrum eyjum sem tilheyra löndum í Erasmus+), gæti heimildin náð til viðbótarferðar.

Fyrir hlutskarpa umsækjendur með skerta hreyfigetu og/eða sérþarfir: kostnaður vegna sérstakrar aðstoðar (fylgdarmanneskju, leiðsöguhunds fyrir sjónskerta hlutskarpa umsækjendur o.s.frv.) gæti verið greiddur á grundvelli viðeigandi gagna sem rökstyðja sérþarfirnar, eins og krafist er samkvæmt landslögum búsetulandsins.

 

11. Tímaáætlun til viðmiðunar

Umsóknartímabil

frá 30. október kl. 12:00 (upphaf), staðartími í Brussel, 

til 13. nóvember 2025, 12:00 (lok), staðartími í Brussel

Niðurstöðurnar tilkynntar

7. janúar 2026

Mögulegt að hefja ferðalög

1. mars 2026

 

12. Ef hlutskarpur þátttakandi hættir við eða aflýsir ferð sinni

Sérhver ferðapassi verður skráður á visst nafn og óheimilt er að framselja hann til annars einstaklings. Ekki er hægt að breyta nafninu í ferðapassanum.

Ef hlutskarpur umsækjandi hafnar ferðapassanum sínum af hvaða ástæðu sem er áður en verktakinn, tilnefndur af EACEA, hefur bókað ferðapassann, þá gengur sæti hans til einhvers annars af biðlistanum samkvæmt lækkandi forgangsröð. Hlutskarpir umsækjendur eru beðnir að láta verktakann vita áður en nokkuð er bókað.

Ef meðlimur í hópi (leiðtogi eða meðlimur hópsins) hættir við að ferðast áður en verktaki EACEA hefur bókað ferðapassann, mun afboðun hans ekki setja ferð hópsins í uppnám. Þeir meðlimir hópsins sem eftir standa geta samt sem áður ferðast eins og ekkert hafi í skorist. Hins vegar er ekki hægt að skipta um þann sem hætti við. Ferðapassi sem þannig losnar gengur til einstaklings á biðlistanum samkvæmt lækkandi forgangsröð.

Meðlimir hóps geta ákveðið síðar að ferðast einir og mun það ekki hafa áhrif á hópinn sem slíkan.

Ferðapassanum fæst hvorki skipt né fæst hann endurgreiddur. 

 

13. Óviðráðanlegar aðstæður

Ef ferð er rofin vegna ófyrirsjáanlegra og óvenjulegra aðstæðna eða atburða sem þátttakandinn ræður ekki við og sem ekki er hægt að rekja til glappaskots eða vanrækslu af hans hálfu, þá er hægt að gefa út nýjan ferðapassa. EACEA og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins munu vega og meta sérhvert slíkt tilvik út af fyrir sig.

 

14. Ferðasagan rakin

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins vill endilega heyra aftur frá þátttakendum og mun hvetja unga DiscoverEU-ferðalanga til að deila reynslu sinni og ævintýrum. Hlutskarpir þátttakendur verða Sendiherrar DiscoverEU. Þeim er boðið að gefa skýrslu um reynslu sína af ferðalögum, t.d. í gegnum samfélagsmiðla eða með því að bjóða upp á kynningu í skólum eða í nærsamfélaginu. 

Umsækjendunum er velkomið að ganga í opinbera #DiscoverEU-hópinn á Facebook.. Ungir ferðalangar þurfa einnig að taka þátt í netkönnun sem send er út af verktaka framkvæmdastjórnar ESB og/eða EACEA eftir að ferðatímabilinu lýkur. Að svo búnu munu ferðalangarnir fá vottorð, sem myndast sjálfkrafa, um þátttöku sína þar sem lögð verður áhersla á þá hæfni og færni sem þeir öfluðu sér með ferðareynslu sinni.

 

15. Vegabréfsáritanir 

Það fer eftir ríkisfangi þátttakendanna og fyrirhugaðri ferðaáætlun þeirra (utan-Schengen svæðisins), hvort þeir gætu þurft á einni eða fleiri vegabréfsáritunum að halda. Það er í verkahring viðkomandi ríkis að gefa út vegabréfsáritanir. Þátttakendur þurfa að afla sér sjálfir upplýsinga um þetta hjá opinberum aðilum og leggja fram umsóknir sínar með góðum fyrirvara hjá ábyrgum yfirvöldum. Afgreiðsla vegabréfsáritana getur tekið nokkrar vikur og/eða mánuði. Því ætti að leggja fram beiðnir um vegabréfsáritun með að minnsta kosti eins mánaðar fyrirvara áður en brottförin var áætluð. DiscoverEU ferðapassinn verður ekki bókaður uppá nýtt vegna seinkunar á útgáfu vegabréfsáritunarinnar, ef umsóknin um hana var lögð fram innan við 4 vikum fyrir brottför eða innan 8 vikna fyrir lok ferðatímabilsins. Verktakinn veitir aðstoð í þessu sambandi. En hvernig svo sem því vindur við, þá það ætíð á ábyrgð þátttakenda að hafa skilríki sín í lagi áður en þeir hefja ferð sína.

Framkvæmdastjórn ESB, EACEA og verktakinn eru ekki í þeirri stöðu að geta haft áhrif á ákvarðanir landsyfirvalda varðandi vegabréfsáritanir.

DiscoverEU greiðir kostnaðinn sem tengist vegabréfsárituninni. 

Þegar sjúkratrygging er ófrávíkjanleg krafa vegna útgáfu vegabréfsáritunarinnar, þá mun verktakinn útvega hana. DiscoverEU greiðir kostnaðinn sem tengist því.  

 

16. Tryggingar

Þátttakendum er ráðlagt að afla sér viðeigandi sjúkra- og ferðatryggingar fyrir allan ferðatímann. Venjulega tryggja almennar sjúkratryggingar heimalandsins þátttakendurna meðan á ferðalaginu stendur gegnum Evrópska sjúkratryggingakortið. 

Hinsvegar dekkar Evrópska sjúkratryggingakortið eða heilsutrygging hjá einkareknu fyrirtæki ekki öll hugsanleg tilfelli, einkum og sér í lagi heimflutning eða ef þörf er á aðkomu sérfræðilækna. Í slíkum tilfellum er ráðlegt að afla sér viðbótartrygginga.  

 

17. Fyrirvarar

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, EACEA og verktaki þess munu einungis láta í té ferðapassa og DiscoverEU-afsláttarkortið og greiða kostnað vegna útgáfu vegabréfsáritana og tengdan tryggingarkostnað eins og útskýrt er hér að ofan. Í undantekningartilvikum og ef það er samþykkt fyrirfram af EACEA má taka til greina kostnað sem tengist sérþörfum, hreyfihömlun, truflunum á ferðum vegna óviðráðanlegra atvika o.þ.u.l. Kostnað vegna gistingar, framfærslu, grunntryggingar, ferðaviðbóta eða hvers konar annan kostnað í tengslum við ferðina skulu hlutskarpir umsækjendur bera sjálfir.

Framkvæmdastjórnin, EACEA og verktaki þeirra skulu ekki sæta ábyrgð fyrir neitt það tjón sem þátttakendurnir valda eða verða fyrir, þar með talið hvers kyns tjón sem þriðju aðilar valda eða verða fyrir og er afleiðing af hinum styrktu aðgerðum eða skapast meðan á þeim stendur.

Framkvæmdastjórnin, EACEA og verktaki þeirra skulu ekki sæta ábyrgð fyrir neitt efnislegt, óefnislegt eða líkamlegt tjón sem þátttakendurnir verða fyrir eða fylgimanneskja á þeirra vegum ef um er að ræða sérþarfir meðan á ferðalagi þeirra eða dvöl stendur.

Ferðin sem stefnt er að er háð takmörkunum sem tengjast fjárveitingu, tíma og ferðapössum og afsláttarkortum í boði. Þess vegna getur það verið háð breytingum, og utanaðkomandi verktakinn sem tilnefndur er af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og EACEA getur því ekki tryggt að hægt sé að ljúka ferðalaginu eins og að var stefnt.

Hlutskörpum umsækjendum er ráðlagt að afla sér viðeigandi sjúkra- og ferðatryggingar fyrir allan ferðatímann. Venjulega tryggja almennar sjúkratryggingar heimalandsins þátttakendurna meðan á DiscoverEU ferðalaginu stendur gegnum Evrópska sjúkratryggingakortið. Hinsvegar dekkar Evrópska sjúkratryggingakortið eða heilsutrygging hjá einkareknu fyrirtæki ekki öll hugsanleg tilfelli, einkum og sér í lagi heimflutning eða ef þörf er á aðkomu sérfræðilækna. Í slíkum tilfellum er ráðlegt að afla sér viðbótartrygginga.

Framkvæmdastjórnin og EACEA áskilja sér rétt til þess í undantekningatilfellum að breyta reglunum sem settar eru fram í 10. og 11. lið.

 

18. Gildandi lög

Þetta kall eftir umsóknum lýtur lögum ESB. Dómstóll Evrópusambandsins skal hafa óskerta lögsögu í hverjum þeim ágreiningi, sem upp kann að koma milli Sambandsins og hvaða umsækjanda eða þátttakanda sem er, um túlkun, beitingu eða gildi reglna þessa kalls eftir umsóknum, ef ekki er unnt að leysa slíkan ágreining með vinsamlegum hætti.

 

19. Gagnavernd

Gögn sem beðið er um verða einungis notuð til að úthluta umsækjendum ferðapassa sem gerir kleift að bóka farmiða og veita þeim þjónustu sem tengist DiscoverEU, svo sem DiscoverEU-fræðsluferlið eða kynningarátak DiscoverEU. Í því tilfelli getur þátttakandinn átt von á því að framkvæmdastjórnin og aðrar stofnanir sem viðurkenndar eru af henni sem og EACEA, landsskrifstofur Erasmus+ og Eurodesk hafi samband við hann.

Öll meðferð framkvæmdastjórnarinnar og EACEA á persónuupplýsingum verður í samræmi reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2018/1725 frá 23. október 2018 (um niðurfellingu reglugerðar (EB) nr. 45/2001) og í samræmi við „tilkynningar um hvernig gagnavinnslu skuli háttað“ til persónuverndarfulltrúa framkvæmdastjórnarinnar (aðgengilegt almenningi í skrá persónuverndarfulltrúans). Slíkar upplýsingar verða unnar af „ábyrgðaraðilum gagna“ hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og EACEA í þeim tilgangi að kalla eftir umsóknum og í þágu framkvæmdar og eftirfylgni eða í því skyni að vernda fjárhagslega hagsmuni ESB.

Í persónuverndaryfirlýsingu Evrópsku ungmennagáttarinnar og gagnaverndaryfirlýsingu DiscoverEU er greint frá því hvernig persónuupplýsingar eru nýttar í tengslum við verkefnið og hvernig þau persónulegu gögn eru vernduð. 

Umsækjendur og þátttakendur eiga rétt á að leita til Evrópsku persónuverndarstofnunarinnar með ágreiningsmál sín hvenær sem er.

 

20. Kvartanir

Kvörtunareyðublað verður aðgengilegt á vefsíðu verktakans sem framkvæmdastjórnin og EACEA tilnefna til að sjá um ferðabókanirnar. Hlutskarpir umsækjendur verða upplýstir um þennan möguleika þegar passar þeirra verða bókaðir.

 

¹ Enski textinn gengur framar þýðingum á öll önnur tungumál. Sama gildir um aðrar upplýsingar og skjöl frá DiscoverEU sem birt eru á Evrópsku ungmennagáttinni.

² Ferðapassi er miði sem gerir farþega kleift að fara annaðhvort ákveðinn fjölda fyrirframgreiddra ferða eða ótakmarkaðar ferðir innan ákveðins tíma á skilgreindu landsvæði.

³ Ungt fólk sem sækir um á Evrópsku ungmennagáttinni er kallað „umsækjendur“. Ef umsókn þeirra ber árangur eru þeir nefndir „hlutskarpir umsækjendur“. Þegar þeir hafa bókað og fengið ferðapassa eru þeir skoðaðir sem „þátttakendur“. 

⁴ Umsækjendur/þátttakendur eru minntir á að þegar þeir koma fram sem Sendiherrar DiscoverEU halda viðhorf og skoðanir sem þeir láta í ljós áfram að vera þeirra eigin og að þeir ættu ekki á nokkurn hátt að gefa í skyn að Evrópusambandið styðji eða leggi blessun sína yfir þessi viðhorf og tjáðar skoðanir. Ennfremur ættu þeir að forðast framkomu sem samræmist ekki markmiðum og meginreglum Evrópusambandsins eða DiscoverEU-áætlunarinnar eða hvers konar framferði sem er ólöglegt.

⁵ Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB, KBE) 2024/2509 frá 23. september 2024 um fjárhagsreglur sem gilda um fjárlög Sambandsins (endurútgefin) („fjárhagsreglugerð ESB“) (Stj.tíð. ESB L, 2024/2509, 26.9.2024).

⁶ Sjá Kvóti fyrir hvert land.